simplebooklet thumbnail

of 0

ABCD

 

Eins og kannski flestir vita þá er grunnskólum gert skylt að útskrifa nemendur í 10. bekk skólaárið 2015-2016 með breyttum hætti. En hvað breytist í meginatriðum?

 • Breytingin snýr að birtingu upplýsinga um námsmat.

 • Við förum frá því að gefa einkunnir í tölunum 0-10 yfir í að gefa þær upp í bókstöfunum D, C, C+, B, B+, A.

 • Einkunnakvarðinn metur hæfni.

 

Margir forráðamenn hafa nú þegar séð breytta einkunnagjöf birtast í niðurstöðum samræmdra könnunarprófa fyrir börn sín. Til stóð að þessi breyting næði inn í námsmatskerfi skólanna sjálfra en því hefur verið ítrekað frestað vegna ýmissa ástæðna. Breytingin gerist hægt og bítandi. En af hverju að breyta einkunnakvarðanum?

 • Þetta er gert í samræmi við nýja Aðalnámskrá grunnskóla frá árinu 2011.

 • Markmiðið er að samræma viðmið sem liggja til grundvallar námsmati á milli skólastiganna leik-, grunn- og framhaldsskóla.

 • Vonast er til að námsmatið verði sanngjarnara og réttmætara en áður hefur verið.

 • Einkunnaskalinn kemur til móts við þróun nútímasamfélags þar sem auknar kröfur eru gerðar til skóla um að meta hæfni eða færni (e. skills).

 

Hvað er átt við með hæfni?Hvernig ber okkur að skilja breytinguna?

 • Á þessum tímapunkti er enn tekist á um túlkun nýrra námsmatskvarða vítt og breitt um landið.

 • Við í Vallaskóla lítum fyrst og fremst til þess sem Aðalnámskrá segir. Samkvæmt henni þýðir að nemendur sem fá einkunnina B í viðkomandi faggrein hafi náð hæfniviðmiðum faggreinarinnar. Þetta segir okkur að nemandinn hafi staðist viðmiðið, hvorki meira né minna. Að fá A þýðir að nemandinn skarar fram úr því sem námskrá skólans segir til um (sbr. orðalagið framúrskarandi í Aðalnámskrá).

 • Að fá B þýðir ekki að nemandi hafi fengið 8,0 í einkunn. Að fá A þýðir ekki að nemandi hafi fengið 10,0.

 

Hvernig mun einkunnaskírteini barns míns líta út í vor?

 • Nemendur fæddir árið 2000 hafa vissa sérstöðu fram yfir aðra árganga.

 • Þetta er fyrsti árgangurinn sem útskrifast samkvæmt hinum nýju kvörðum.

 • Þó það orki tvímælis þá mun lokamat þeirra verða birt með blöndu af bókstöfum og tölulegum kvörðum. Þetta er eins konar millibilsástand.

 • Það er óumflýjanleg niðurstaða þar sem tölulegar einkunnir hafa legið til grundvallar námsmatinu lungann af skólaárinu.